519 6770
Borgartún 27, 105 Reykjavík

Fróðleikur

Stöðluð viðtöl

Atvinnuviðtal er ein algengasta matsaðferðin í starfsmannaráðningum. Fæstir, ef þá nokkrir, ráða starfsmann eingöngu út frá ferilskrá viðkomandi. Í viðtölum vilja atvinnuveitendur glöggva sig betur á upplýsingunum sem fram koma í ferilskrá, gera sér betur grein fyrir reynslu umsækjandans og fá tilfinningu fyrir honum sem manneskju, samstarfsfélaga eða undirmanni, og hvernig viðkomandi eigi eftir að falla inn í það starfsumhverfi sem fyrir er. Þá skipta persónulegir hæfileikar, framkoma og dagfarsprýði einstaklinga oft lykilatriði í störfum, sem og hæfni þeirra til að bregðast við aðstæðum á sem bestan hátt. Þetta eru allt atriði sem byggjast að miklu leyti á tilfinningu en einmitt þess vegna geta atvinnuviðtöl orðið ómarkviss og í raun hálfgerð tímaeyðsla ef viðtölin eru ekki undirbúin og framkvæmd á besta mögulega hátt.

Stöðluð viðtöl hafa rutt sér til rúms í mannauðsstjórnun á undanförnum árum og gefa góða raun. Mannauðs- og ráðningastjórar hafa tileinkað sér þessa aðferð í miklum mæli vegna þess að á sama tíma og viðtalið gefur innsýn í persónuleika umsækjandans er hægt að meta ákveðin atriði í hans fari og jafnframt gera sanngjarnan og marktækan samanburð á umsækjendum að loknum viðtölunum.

Staðlað viðtal felur í sér að ákveðnum ramma er ávallt fylgt svo inntak hvers viðtals verður það sama, þrátt fyrir að hægt sé að eiga þægilegt spjall um ákveðin atriði og leyfa umsækjandanum að koma því að sem hann hefur hug á. Hins vegar kemur staðlað form á viðtali í veg fyrir að umsækjandinn geti stýrt viðtalinu sér í hag.

Óstaðlað viðtal felur í sér að engin tvö viðtöl verða eins og því verður útkoman úr þeim aldrei sambærileg; þannig hefur matsaðferðin misst marks því ef viðtölin eru ólík og draga fram mismunandi upplýsingar og áherslur geta margir umsækjendur þótt álitlegir en af mismunandi ástæðum. Atvinnuveitandinn er því engu nær um hver hentar best í starfið að loknum tímafrekum viðtölunum og hættan á að rangur einstaklingur sé ráðinn í starfið eykst.

Tilgangur atvinnuviðtals er hins vegar fyrst og fremst sá að afla upplýsinga um umsækjandann svo hægt sé að bera hann saman við aðra umsækjendur. Það þarf því að afla sömu vitneskjunnar um hvern og einn, svo hægt sé að bera þá saman.

Staðlað viðtal þarfnast vissulega undirbúnings en auðveldar að sama skapi viðtalsferlið, úrvinnslu og ákvarðanir. Rannsóknir sýna enn fremur að stöðluð viðtöl minnka áhrif staðalmynda kynjanna á mat á umsækjendum.

(Bókin Starfsmannaval e. Dr. Ástu Bjarnadóttur höfð til hliðsjónar)

Er tígrisdýr á skrifstofunni?

Höfundur: Kristinn Tryggvi Gunnarsson
Nýjar rannsóknar á virkni heilans hafa varpað ljósi á það hvernig nútíma samskiptatækni getur unnið á móti okkur og beinlínis dregið úr sköpunargetu, afköstum og orku.  Stöðugt áreiti sem frá þessum tækjum kemur truflar einbeitingu okkar allan daginn og veldur því að við vöðum stefnulaust úr einu í annað í kapphlaupi við að skoða hver var nú að senda okkur tölvupóst, smáskeyti, tvít eða fésbókarlæk.

Hver svona truflun veldur því að það tekur okkur 5-7 mínútur að komast aftur af stað í verkefninu sem við vorum að vinna áður en truflunin tróð sér inn í líf okkar.  Það má líkja þessu við stöðugan straum af smámöl sem dynur á okkur allan daginn, rænir okkur stöðugt athyglinni og veldur því að við förum heim að loknum vinnudegi uppgefin á sál og líkama og eigum erfitt með að festa hendur á því sem við afrekuðum yfir daginn.

Ef að þú samsvarar þér við lýsinguna hér að ofan þá ættir þú að staldra við og lesa áfram.

Til sálfræðinga og geðlækna leitar fólk í auknum mæli með einkenni athyglisbrests (ADD), það á erfitt með að einbeita sér, er gleymið og þjáist af stöðugu orkuleysi og þreytu.  Geðlæknirinn Ed Hallowell, segir athyglisbrest sjaldan orsökina heldur það sem hann kallar “alvarlegt tilfelli af nútíma skrifstofulífi”. Rannsóknir sýna að þekkingarstarfsmaðurinn fær að meðaltali 93 tölvupósta á dag.  Fimm mínútur í að sinna hverjum tölvupósti og þú gerir ekki meira þann daginn.

Vandamálið er að á bak við hvern tölvupóst er einhver sem þarfnast einhvers frá okkur og við erum þannig gerð að við viljum helst þóknast öllum og þannig byrjum við að lifa í innhólfinu okkar, byrjum daginn á því að skoða hver hafi sent okkur póst og hvað viðkomandi vilji frá okkur í dag.  Áður en við vitum af er dagurinn liðinn og mikilvægu verkefnin sem við ætluðum að sinna eru enn óunnin.

Gæti þetta átt sinn þátt í því að framleiðni íslenska þekkingarstarfsmannsins er, skv. nýlegri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey, allt að 42% lægri en nágranna okkar á norðurlöndunum?

Það sem þarna er að gerast á sér líffræðilegar orsakir, við verðum nefnilega háð áreitinu, hver tölvupóstur, hvert tvít og hvert smáskeyti sendir skammt af dópamíni út í blóðrásina sem gefur tímabundna vellíðan sem endist fram að næsta tölvupósti.  Þannig hefur verið sýnt fram á að við strjúkum snjallsímann okkar allt að 150 sinnum á dag í von um að fá næsta “fix”.  Að verki eru meðfæddir eiginleikar sem björguðu okkur í árdaga þegar við röltum um slétturnar í leit að næstu bráð. Ef skyndilega birtist tígrisdýr þá tóku ósjálfráð viðbröð við og líkaminn brást við með því að dæla dópamíni út í blóðið og við tókum á rás eða réðumst til atlögu. En hvað er þá til ráða? Málið snýst ekki um tímastjórnun, ekki um að gera fleiri hluti í einu, hraðar eða á skemmri tíma.

Lausnin liggur í því að staldra við, hætta að bregðast við áreiti, taka vandaðar ákvarðanir og stjórna tækninni, en láta hana ekki stjórna okkur.  Stjórna en ekki láta stjórnast.  Ekki koma öllu í verk, heldur koma réttu hlutunum í verk.

Ef að við tökum frumkvæðið og ákveðum að einbeita okkur að því sem er mikilvægast í stað þess að láta stjórnast af áreitinu og því sem er áríðandi þá höfum við strax stigið fyrsta skrefið að aukinni framleiðni.  Við ættum að spyrja okkur í upphafi hverrar vinnuviku: “Hvaða tvö til þrjú verkefni unnin af kostgæfni eru líklegust til að skila mér lengst í átt að mikilvægustu markmiðum mínum í komandi viku?”.

Stjórnendur ættu að spyrja sig “hvað er það sem ég get gert, og bara ég get gert sem hefur mest áhrif á árangur starfseiningar minnar?” og þekkingarstarfsmaðurinn ætti að spyrja sig: “hvað er það sem ég get gert sem skapar mest virði fyrir starfseininguna mína?”.

En svo er líka bara hægt að opna tölvupóstinn og hleypa tígrísdýrinu inn.