519 6770
Borgartún 27, 105 Reykjavík

Svör við algengum spurningum

Hvert er fyrsta skrefið í markvissri atvinnuleit?

Til þess að þú getir á árangursríkan hátt komið þér á framfæri á atvinnumarkaði er nauðsynlegt að þú framkvæmir sjálfsskoðun og gerir upp við þig hvar þínir hæfileikar, reynsla, menntun og áhugi njóta sín best. Hafðu atvinnuleit þína hnitmiðaða, annars gæti umsókn þín horfið í skugga umsókna annarra sem gera grein fyrir skýrum markmiðum og áhuga.

Er til uppskrift að góðri ferilskrá?

Ferilskrár geta verið mjög mismunandi, ekki síst eftir starfsgreinum og atvinnuumhverfi. Þó eru nokkur atriði sem hafa ber í huga við gerð ferilskráa almennt:

  • Ferilskráin er fyrsta viðkynning fyrirtækisins af þér, því er mikilvægt að ferilskráin sé áhugavert upplýsingarit um þig.
  • Hafðu textann hnitmiðaðan og stuttan. Atvinnuveitandi hefur nauman tíma til yfirlestrar svo upplýsingarnar þurfa að hitta strax í mark.
  • Gefðu þér góðan tíma í að vinna ferilskrána þína. Fáðu álit frá öðrum með tilliti til málfars, stafsetningar og uppsetningar.
  • Blaðsíðufjöldi ætti ekki að telja yfir tvær A4 síður. Vistaðu ferilskrána á PDF formi.
  • Umsagnaraðilar sem gefa upplýsingar um fyrri frammistöðu þína þurfa að vera faglegir og þekkja vel til starfa þinna. Skráðu bein símanúmer þeirra og gættu þess að uppfæra þau eftir þörfum. Taktu fram ef ekki má hafa samband við þá án samráðs við þig.
  • Gerðu grein fyrir ábyrgðarhlutverkum og verkefnum í hverju starfi. Bentu á viðurkenningar sem þú hefur hlotið, gerðu grein fyrir námskeiðum sem þú hefur sótt og félagsstörfum sem þú hefur sinnt.
  • Hafðu skýra uppsetningu og skiptingu á köflunum um menntun og starfsreynslu. Hafðu ártöl rétt og í samfelldri, öfugri tímaröð þannig að nýjasta starf eða menntunarstig sé efst. Hérlendis er venja að að hafa ljósmynd á ferilskrá; láttu fagaðila um myndatökuna.
  • Dragðu fram kosti þína sem nýtast í starfi, segðu frá því sem þú hefur gert vel og settu það fram á aðlaðandi hátt. Það er mikilvægt að hafa ferilskrána sniðna að þeim starfsgreinum sem sóst er eftir, því gæti verið gott að hafa fleiri en eina ferilskrá tiltæka, með áherslum í samræmi við það starf sem sótt er um hverju sinni.
  • Þú ættir að íhuga að stofna síðu á www.linkedin.com. LinkedIn er tengslasíða fyrir atvinnulífið og þar má finna ógrynni af fróðleik og hollráðum um atvinnuleit og -tækifæri.

Er nauðsynlegt að skrifa kynningarbréf?

Þegar sótt er um ákveðið starf ætti að skrifa kynningarbréf. En við almenna skráningu hjá ráðningastofu er ekki ástæða til þess. Bréfið ætti að vera að hámarki ein A4 síða. Gerðu grein fyrir áhuga þínum á starfinu, hvers vegna þú sækir um það, hæfni þinni í starfið og að þú óskir eftir að fá viðtal. Kynningarbréf er hugsað sem stuðningur við upplýsingar sem koma fram í ferilskrá.

Hvernig stunda ég atvinnuleit á skilvirkan hátt?

Það er mikilvægt að skipuleggja sig vel við atvinnuleit og hafa hana hnitmiðaða:

Gagnasöfnun
Safnaðu saman ýmsum persónulegum gögnum, svo sem prófskírteinum, viðurkenningum, verðlaunum og meðmælabréfum. Hafðu þessi gögn við höndina ef fyrirtæki óskar eftir að fá þau send.

Yfirsýn
Áður en þú hefst handa við starfsleitina er gott að skipuleggja hvernig þú
ætlar að halda utan um samskipti við fyrirtækin þar sem þú sækir um störf. Skjöl og gögn safnast hratt upp og upplýsingar og ýmis smáatriði þurfa að vera á vísum stað.
Gott getur verið að nota minnisbók til að skrá hjá sér allt sem tengist atvinnuleitinni og/eða, fyrir þá sem eru tæknivæddir, búa til Word, Excel eða annars konar rafrænt skjal til að halda utan um gögnin. Þar getur verið gott að hafa:

  • Afrit af starfsauglýsingum þeirra starfa sem þú sækir um.
  • Lista yfir öll fyrirtæki sem þú hefur sótt um starf hjá, starfstitil, og dagsetningu umsóknar.
  • Lista yfir þau fyrirtæki sem hafa samband til baka og nöfn þeirra starfsmanna sem þú hefur verið í beinu sambandi við.
  • Athugasemdir eða punkta sem þú skrifar niður í kjölfar viðtala og þínar vangaveltur varðandi atvinnuleitina.

Aðgengi
Skoðaðu tölvupóstinn þinn a.m.k. tvisvar á dag, líka ruslpóstinn ef ske kynni að póstur frá fyrirtækjum endaði þar. Svaraðu alltaf símanum þegar þú getur. Ef þú getur með engu móti svarað símanum, skaltu hafa talhólfið þitt virkt og bjóða fólki að skilja eftir skilaboð. Þú getur líka sent SMS með þeim skilaboðum að þú munir hafa samband um leið og þú hefur tök á. Ef þú ert enn í starfi skaltu varast að nota vinnunetfangið þitt í atvinnuleit. Bæði getur atvinnurekandi hugsanlega fengið veður af því að þú sért í starfsleit og eins lítur það ekki faglega út að senda umsókn um starf frá netfangi annars fyrirtækis.

Á ég að sækja um starfið?

Íhugaðu vel hvaða störf þú sækir um. Skoðaðu vandlega þær hæfniskröfur sem settar eru fram. Ef þú uppfyllir þær þá geturðu sótt um starfið. Ef þú uppfyllir hæfniskröfur að litlu eða engu leyti eru líkur á að þú fáir höfnun, því er lykilatriði að þú sóir ekki tíma þínum og orku í að sækja um störf sem henta þér ekki.

Hvernig ber ég mig að í atvinnuviðtali?

Það er mikilvægt að vera vel undirbúin(n) fyrir atvinnuviðtal, það eykur líkur á að þér líði vel í viðtali og að þú svarir þeim spurningum sem fyrir þig eru lagðar, fumlaust og af öryggi. Það ber að hafa í huga að atvinnuviðtal er ekki leikrit með tilbúnu handriti. Við getum ekki undirbúið einræðu og lagt hana á minnið. Atvinnuviðtal er samtal þar sem atvinnurekandi og umsækjandi skiptast á upplýsingum.

Hugleiddu líklegar viðtalsspurningar og semdu svör í huganum eða láttu einhvern hlýða þér yfir. Þú getur líka æft þig með því að tala upphátt í einrúmi til að heyra hvernig svörin þín hljóma, hvaða orð og hugtök henta þér best svo svörin verði þjál.

Þú getur aflað þér fróðleiks um viðtalsspurningar í ótal bókum um ráðningar og á internetinu. Hafðu starfslýsinguna og helstu verkefni til hliðsjónar við undirbúninginn.

Vertu tilbúin(n) með dæmi úr fyrri störfum, sem þú getur sagt skilmerkilega frá og lýst hvernig þú leystir ákveðin verkefni þar.

Eru öll störf auglýst?

Nei, við fáum inn mörg störf sem ekki eru auglýst. Þá nýtum við gagnagrunninn okkar til að finna fólk sem hentar í störfin. Því er mikilvægt að þú nýskráir þig hjá Ráðum og uppfærir skráninguna eins oft og þörf er.

Hvers vegna ætti ég að skrá mig hjá Ráðum?

Mörg fyrirtæki treysta ráðgjöfum Ráðum best til að finna rétta starfsfólkið svo það hefur lítinn tilgang að hafa samband við fyrirtækin beint. Jafnframt eru mörg störf ekki einu sinni auglýst og nýtum við þá gagnagrunninn okkar til að hafa samband við atvinnuleitendur að fyrra bragði.

Hvernig nýskrái ég mig?

Smelltu á Nýskrá/Innskrá undir Umsækjendur, fylltu út nýskráningarformið og smelltu á ‘Next’.  Þú ættir síðan að geta skráð þig inn með því notendanafni og lykilorði sem þú valdir. Þetta er bæði einfalt og fljótlegt ferli.

Hversu lengi eru gögnin mín geymd?

Eins lengi og þú vilt vera á skrá hjá Ráðum. Gögnin þín eru geymd í kerfinu okkar og aðeins aðgengileg þér og starfsmönnum Ráðum. Hafðu í huga að við nýtum gagnagrunninn okkar þegar við leitum að aðilum í störf sem ekki eru auglýst. Því er mikilvægt að þú uppfærir skráninguna eins oft og þörf er. Þú getur sent póst á radum@radum.is ef þú óskar eftir að afskrá þig.

Get ég uppfært skráninguna mína?

Við hvetjum þig til að uppfæra ferilskrána þína eins oft og þörf krefur. Með þeim hætti höfum við alltaf nýjar og viðeigandi upplýsingar um þig og það getur komið að gagni þegar við erum með störf sem ekki eru auglýst.

Ríkir trúnaður við umsækjendur?

Við meðhöndlum öll gögn sem trúnaðarmál, kerfin okkar eru aðgangsstýrð og við sendum aldrei gögn þín til þriðja aðila án þíns samþykkis.

Umsóknarferlið

Mjög einfalt og auðvelt er að sækja um störf hjá Ráðum með einungis nokkrum smellum. Störf eru auglýst á vef Ráðum; þú sækir um hvert starf með því að smella á hnappinn “Sækja um” – ef þú ert ekki þegar innskráð(ur) gerirðu það með lykilorði og leyniorði. Þá tilgreinirðu hvernig best sé að hafa samband við þig, skrifar aukaupplýsingar ef vill og smellir svo aftur á “Sækja um” hnapp. Þú færð strax tölvupóst með staðfestingu á móttöku umsóknar og verður svo reglulega upplýst(ur) um gang mála. Það er misjafnt hversu langan tíma tekur að ráða í störf og eru ýmsar ástæður fyrir því. Til dæmis tekur lengri tíma að fara yfir mikinn fjölda umsókna.

Hvernig ganga ráðningaferli fyrir sig?

Hér má sjá ráðningarferlið hjá Ráðum nánar:

radningaferli

Af hverju þarf ég að fara í persónuleika- og hæfnismat?

Af hverju þarf ég að fara í persónuleika- og hæfnismat?
Ráðgjafar Ráðum nota ýmsar matsaðferðir við val á fólki í störf. Prófin sem Ráðum leggur fyrir meta annars vegar persónuleika og hins vegar hæfni einstaklingsins og eru fjögur mismunandi próf notuð, eftir því hvers konar færni er leitað. Með notkun prófanna geta bæði umsækjendur og vinnuveitendur treyst því að faglega sé staðið að úrvinnslu umsókna og því auknari líkur á að hæfasti einstaklingurinn sé valinn í hvert starf. Niðurstöður prófanna ráða þó ekki úrslitum í ráðningaferlinu heldur nýtast til að afmarka þá umsækjendur sem koma helst til greina í viðkomandi starf.

Hvaða laun ætti ég að fá?

Það er eðlilegt að þú veltir þessu fyrir þér ef þú ert í atvinnuleit eða á leið í atvinnuviðtal. Á heimasíðu VR  getur þú nálgast launakannanir og aðrar góðar upplýsingar um laun og kjör. Vertu viðbúin/n að svara spurningu um launahugmyndir þínar þegar þú mætir í atvinnuviðtal.

Hafa ráðgjafar Ráðum samband við umsagnaraðila?

Þegar umsækjandi gefur leyfi leitum við umsagna hjá þeim umsagnaraðilum sem nefndir eru í ferlskránni. Þeir þurfa að vera faglegir og ekki tengjast umsækjanda fjölskyldu- eða vinaböndum. Láttu umsagnaraðila þína vita fyrirfram ef þeir mega eiga von á að haft verði samband við þá vegna atvinnuleitar þinnar.